Rick Moranis hafnaði því að leika í nýju Ghostbusters-myndinni.
Flestir úr upphaflegu myndunum sneru aftur til að leika í nýju myndinni en hann var ekki á þeim buxunum.
„Ég óska þeim góðs gengis. Ég vona að myndin verði frábær. En ég sá engan tilgang með þessu. Af hverju ætti ég að vera bara einn dag í tökum á einhverju sem ég gerði fyrir 30 árum?,“ sagði hinn 62 ára Moranis við The Hollywood Reporter.
Auk Ghostbusters er hann þekktur fyrir myndir á borð við Spaceballs og Honey I Shrunk the Kids.
Moranis tók sér 18 ára hlé frá leiklistinni eftir að eiginkona hans lést úr brjóstakrabbameini árið 1997 og einbeitti hann sér að því að ala upp börnin þeirra tvö.
Núna hefur hann áhuga á að snúa aftur í leiklistina og er tilbúinn til að hlusta á áhugaverð tilboð. „Ég fæ stundum fyrirspurnir út af kvikmynd eða hlutverki í sjónvarpsþætti. Um leið og eitthvað áhugavert kemur upp á borðið myndi ég líklega taka því. En Ghostbusters höfðaði ekki til mín.“
Dan Aykroyd, Bill Murray, Ernie Hudson, Annie Potts og Sigourney Weaver munu öll endurtaka hlutverk sín í Ghostbusters, sem verður frumsýnd í júlí.