Jake Gyllenhaal er sagður hafa verið ráðinn í hlutverk illmennisins Mysterio í næstu Spider-Man kvikmynd.
Dagblaðið The Sun greinir frá því að hinn 37 ára gamli leikari hafi verið valinn til að leika á móti Tom Holland, sem leikur Spider-Man, eftir að Ryan Gosling þurfti að gefa hlutverkið upp á bátinn vegna árekstra við önnur verkefni.
Heimildarmaður blaðsins sagði: „Framleiðendur vildu fá Ryan í hlutverkið, en hann var upptekinn annars staðar. Jake er góður staðgengill, enda hefur hann reynslu af að leika þorpara.
Mysterio birtist fyrst í þrettándu teiknimyndasögunni af The Amazing Spider-Man árið 1964, og var búinn til af Stan Lee og Steve Ditko, sem einnig bjuggu til Spider-Man og fjölda annarra Marvel persóna.
Mysterio er upphaflega Quentin Beck, brellusérfræðingur og áhættuleikari í Hollywood, sem notar sérfræðiþekkingu sína í glæpsamlegum tilgangi, til að geta orðið frægari og ríkari leikari.
Þrjár mismunandi útgáfu af persónunni hafa birst frá því hann var fyrst kynntur til sögunnar.
Tökur á næstu Spider-Man mynd hefjast í London í júní.
Holland, sem er 21 árs, mun leika Peter Parker í fjórða skipti í myndinni, en nú síðast sást hann í hlutverkinu í Avengers: Infinity War.
Stutt er síðan leikur hans í hlutverkinu fékk hrós frá höfundinum, Stan Lee, sem er 95 ára, en hann sagði á Twitter að Holland væri fullkominn í hlutverkinu.
„Aldrei gefa draumana upp á bátinn! Þegar ég fyrst bjó til Spider-Man þá sagði útgefandinn minn að ég væri brjálaður af því að fólk hataði köngulær og skordýr, og hann vildi ekki gefa út bókina. En ég gafst ekki upp fyrr en ég fékk hana útgefna … ég held að @TomHolland1996 sé frábær Spider-Man. Hann er í nákvæmlega réttri hæð og aldri eins og ég ímyndaði mér hann upphaflega. Köngulóarmaðurinn átti aldrei að vera stór. Hvernig hefur Tom vinur minn það?“ sagði Lee á Twitter.
Holland var ánægður með hrósið og svaraði: „Takk fyrir Stan. Þetta hófst allt með þér. Ég vona að við sjáumst fljótt.“