Great Gatsby vinsæl í Bandaríkjunum

Hin litríka kvikmyndagerð leikstjórans Baz Luhrman á sögunni The Great Gatsby, með Leonardo DiCaprio og Carey Mulligan í aðalhlutverkum, var langbest sótta nýja myndin í Bandaríkjunum á föstudaginn, en tekjur af sýningu myndarinnar þann dag námu 19 milljónum Bandaríkjadala, sem er vel umfram væntingar aðstandenda.

Miðað við þessar tölur er áætlað að heildartekjur myndarinnar yfir helgina verði 53 milljónir dala í Bandaríkjunum.

Þessi fíni árangur nægir þó ekki til að ýta stórsmellinum Iron Man 3 af toppi vinsældarlistans, en áætlaðar tekjur Iron Man 3 þessa helgi eru 67 milljónir dala, en myndin var frumsýnd um síðustu helgi.

Hin nýja myndin á listanum, gamanmyndin Peeples, náði heldur lakari árangri, og þénaði 1,1 milljón dala á föstudag.

Peeples segir frá því þegar Wade Walker kemur óboðinn í árlega endurfundaveislu Peeples ættarinnar í Hamptons hverfinu, til að biðja um hönd hinnar mjög svo kæru dóttur þeirra, Grace.