Gosling alltaf langað að ræna banka

Ryan Gosling segist alltaf hafa langað að ræna banka en  hefur aldrei látið verða af því vegna  þess að hann hefur lítinn áhuga á að fara í fangelsi.

 

Leikarinn fer með aðahlutverkið í The Place Beyond the Pines þar sem hann endurnýjar kynni sín við Derek Cianfrance sem leikstýrði honum í Blue Valentine.

Þar leikur Gosling glæfralegan mótorhjólakappa sem snýr sér að glæpum. „Áður en ég lék í Blue Valentine sagði ég Derek að mig hefði alltaf langað að ræna banka en væri of hræddur við að lenda fangelsi,“ sagði Gosling í léttu gríni við Total Film. „En ef ég myndi gera það þá myndi ég aka mótorhjóli inn í gegnum sendiferðabíl í lokin.“

Gosling lærði ýmislegt við tökur á myndinni, þar á meðal að nóg væri að biðja um peninga í bankaráni, þá láta starfsmennirnir mann hafa þá.  „Ég er ekki að mæla með þessu en ég myndi ráðleggja fólki að nota ekki byssu ef það ætlar að ræna banka því vingjarnlegir bankaræningjar þurfa ekki að dúsa eins lengi í steininum.“