Gnarr sýndur þrisvar á Tribeca

Þrjár íslenskar myndir verða sýndar á Tribeca kvikmyndahátíðinni sem verður sett þann 20. apríl nk. í New York, og stendur til 1. maí. Hátíðin er mikil að vöxtum og gríðarlegur fjöldi mynda sýndur á hátíðinni og í tengdum dagskrárliðum.
Myndirnar þrjár eru Gnarr í leikstjórn Gauks Úlfarssonar og stuttmyndirnar Þyngdarafl (Gravity) í leikstjórn Loga Hilmarssonar og Paper í leikstjórn Egils Kristbjörnssonar. Nánari upplýsingar um hátíðina er að finna hér á heimasíðu hátíðarinnar.

Fyrir þá sem eru á ferð um New York þegar hátíðin stendur yfir, og vilja kíkja á Gnarr til dæmis, þá verður hún sýnd föstudaginn 22. apríl, sunnudaginn 24 apríl og mánudaginn 25. apríl. Hér má skoða síðu myndarinnar á Tribeca.

Það er Tribeca Enterprises sem stendur að baki hátíðinni, en fyrirtækið stofnaði leikarinn Robert De Niro árið 2003 ásamt Jane Rosenthal og Craig Hatkoff. Þetta þríeyki stofnaði hátíðina sjálfa tveimur árum fyrr, eða árið 2001, í kjölfar árásanna á tvíburaturnana í New York það sama ár, í þeim tilgangi að auðga efnahagslegt og menningarlegt líf á neðri Manhattan, eins og það er orðað á heimasíðu hátíðarinnar.

Markmið hátíðarinnar er að hjálpa kvikmyndagerðarmönnum að ná til sem breiðasta hóps áhorfenda, að leyfa alþjóðlegum kvikmyndaheimi og almenningi, að upplifa kraft kvikmyndanna og að kynna New York sem mikilvæga kvikmyndamiðstöð.

Á hátíðinni hafa frá byrjun verið sýndar meira en 1200 myndir frá meira en 80 löndum. Frá stofnun hafa 3,25 milljón gestir komið á hátíðina og skapað 660 millljónir Bandaríkjadala í tekjur fyrir New York borg, að því er fram kemur á heimasíðu hátíðarinnar.