Stórleikarinn og leikstjórinn umdeildi Mel Gibson hefur ákveðið að selja 500 hektara landareign sína í Kosta Ríka. Ásett verð er 35 milljónir Bandaríkjadala, eða rúmir 4 milljarðar íslenskra króna. Ástæða sölunnar er að landareignin, sem stendur við sjó, er ekki lengur það athvarf sem það var áður fyrir hann.
„Hann keypti landareignina og fasteignir á henni til að stinga af frá ysnum og þysnum í Hollywood. Núna eru Papparazzi slúðurljósmyndararnir farnir að elta hann þangað,“ segir fasteignasalinn Sandra Miller í samtali við Hollywood Reporter.
Eignin er köllluð Hacienda Dorada, og á henni er sjö herbergja aðalíbúðarhús, og tvö tveggja herbergja hús að auki. Við hvert húsanna er einkasundlaug, og öll standa þau við ströndina á Nicoya skaganum. Landareignin er skógi vaxin á mörg hundruð hektara svæði, og á henni er fastráðið starfsfólk allan ársins hring.