Mad Max: Fury Road hefur fengið gríðarlega athygli og góða dóma eftir að hún var frumsýnd nú fyrr í mánuðinum. Tom Hardy og Charlize Theron fara með aðalhlutverkin í nýjustu útgáfu leikstjórans George Miller sem er ekki einungis höfundur upprunalegu myndanna heldur leikstýrði hann þeim einnig.
Kvikmyndaheimurinn hefur lengi beðið eftir nýrri útgáfu meistara Georges Miller á Mad Max-myndinni frábæru sem hann gerði árið 1979, en hún var ein fyrsta myndin sem Mel Gibson lék í og gerði hann að stórstjörnu.
Á næstu árum fylgdu síðan framhaldsmyndirnar Mad Max 2: The Road Warrior (1981), sem þótti ekki gefa fyrstu myndinni neitt eftir í gæðum, og Mad Max: Beyond Thunderdome (1985) sem einnig naut mikilla vinsælda.
Allar götur síðan hefur George Miller haft í hyggju að gera nýja mynd eftir sögunni og má segja að undirbúningurinn hafi hafist fyrir tuttugu og fimm árum þótt sjálf kvikmyndagerðin hafi ekki farið í gang fyrr en 2009.
Fyrir skömmu var birt myndband þar sem það sýnt er frá gerð myndarinnar í eyðimörkinni. Í myndinni var unnið eins lítið með tölvubrellur og hægt var og má sjá margar stórhættulegar senur myndaðar í myndbandinu hér að neðan.