Kvikmyndaleikkonan Gemma Arterton, sem þekkt er fyrir leik sinn m.a. í Prince of Persia og Clash of the Titans, hefur tekið að sér hlutverk Grétu í mynd sem gera á eftir hinu kunna Grimms ævintýri, Hans og Grétu.
Fyrirfram var talið að Karlar sem hata konur leikkonan Noomi Rapace myndi fá hlutverkið, en hvort sem hún hafi hafnað því eða Paramount Pictures hafi snúist hugur varðandi aðalleikonu í myndina, þá er a.m.k. Gemma búin að landa hlutverkinu.
Myndin verður gerð í anda væntanlegra mynda eins og Pride and Prejudice and Zombies og Abe Lincoln: Vampire Hunter, og mun heita Hansel and Gretel: Witch Hunters, eða í lauslegri þýðingu: Hans og Gréta: Á nornaveiðum.
Með hlutverk Hans fer hinn Óskarstilnefndi Jeremy Renner. Á meðal framleiðenda er háðfuglinn Will Ferrell og Adam McKay, og leikstjóri er Tommy Wirkola. Wirkola gerði síðast nasista-uppvakningamyndina Dead Snow, og því má vænta góðrar skemmtunar af Hans og Grétu undir hans stjórn, ef allt fer vel.
Jeremy Renner er funheitur þessa dagana – er að vinna að Mission Impossible: Ghost Protocol ásamt Tom Cruise, og leikur einnig Hawkeye í The Avengers. Á síðasta ári átti hann eftirminnilegan leik í The Town ásamt Ben Affleck.
Hansel and Gretel: Witch Hunters gerist 15 árum eftir að systkinin lenda í sínum frægu vandræðum í piparkökuhúsi vondu nornarinnar í skóginum. Þau eru nú sérþjálfuð í nornaveiðum og svífast einskis til að koma höndum yfir nornirnar.