Geimgengill í Chucky stiklu

Ný stikla er komin út fyrir endurgerð hrollvekjunnar Child´s Play, sem MGM framleiðslufyrirtækið er að senda frá sér 21. júní nk.

Í stiklunni fáum við að heyra í Chucky sjálfum, sem þýðir að við fáum að heyra rödd sjálfs Loga Geimgengils úr Stjörnustríði, eða leikarans Mark Hamill.

Röddin heyrist þó aðeins í örfáar sekúndur í lok stiklunnar, en samt nóg til að finna kaldan svitann spretta fram.

Stiklan gefur lítið uppi um söguþráð myndarinnar, farið er úr einu atriðinu í annað, en samt fær maður smá tilfinningu fyrir því sem er í vændum, og hvernig leikstjórinn Lars Klevberg ætlar að tækla upphaflegu mynd þeirra Tom Holland og Don Mancini frá árinu 1988.

Morðóða dúkkan sem flestir ættu að þekkja og er í aðalhlutverki í myndinni, Chucky, býr yfir ýmsum eiginleikum, og mætti líkja henni við T-X í Terminator 3: Rise of the Machines, sem þýðir bara, eitt; H-R-E-M-M-I-N-G-A-R.

Með helstu hlutverk í endurgerðinni fara þau Aubrey Plaza, Brian Tyree Henry, Tim Matheson, Gabriel Bateman og, eins og fyrr sagði, Hamill sem Chucky.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: