Gauragangur frumsýndur 26. desember

Ný íslensk kvikmynd, Gauragangur, í leikstjórn Gunnars B. Guðmundssonar verður tekin til sýninga í kvikmyndahúsum um allt land á annan í jólum, eða þann 26. desember nk. Með aðalhlutverk í myndinni, hlutverk Orms Óðinssonar, fer Alexander Briem og fetar hann þar með í fótspor leikaranna Ingvars E. Sigurðssonar og Góa sem hafa leikið Orm á sviði í Þjóðleikhúsinu og í Borgarleikhúsinu.

Í fréttatilkynningu frá Zik Zak framleiðslufyrirtækinu segir eftirfarandi um söguþráð myndarinnar: „Árið er 1979 og sjálfskipaði snillingurinn Ormur Óðinsson er á lokaári í gaggó. Hann hefur takmarkaðan áhuga á náminu enda er margt annað sem glepur hugann eins og djammið, vinirnir, gullgerð og auðvitað ástin.“

Leikstjóri Gauragangs er Gunnar B. Guðmundsson en hann hefur áður leikstýrt Astrópíu og áramótaskaupinu 2009. Gunnar leikstýrir einnig áramótaskaupinu í ár.

Gauragangur byggir á metsölubók Ólafs Hauks Símonarsonar frá árinu 1988. Ottó Geir Borg og Gunnar B. Guðmundsson unnu handritið upp úr skáldsögunni.

Alexander Briem fer með aðalhlutverk í myndinni eins og fyrr sagði, en í öðrum hlutverkum eru Hildur Berglind Arndal, Eygló Hilmarsdóttir, Atli Óskar Fjalarsson, Sigurbjartur Atlason, Steinn Ármann Magnússon, Edda Arnljótsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Snorri Engilbertsson, Þorsteinn Bachmann, Stefán Jónsson, Gunnar Helgason, Björk Jakobsdóttir og Þrúður Vilhjálmsdóttir.

Stikk: