Stórleikarinn Gary Oldman býr sig nú undir að leika lögreglustjórann James Gordon í þriðja sinn í The Dark Knight Rises. Nýlega lauk vinnu við handritið, eftir Jonathan Nolan, og í viðtali við útvarpsstöðina AbsoluteRadio lýsti Oldman örygginu sem umkringir handritið.
„Ef þú vilt komast inn á skrifstofuna er tekið á móti þér í anddyrinu, þar er mikið um lykla og læstar dyr. Svo lestu handritið í litlu herbergi og fylgst er með þér allan tímann. Svo er enginn endir á handritinu – Christopher [Nolan] segir manni hvernig myndin endar.“ sagði Oldman. „Mér er sagt að það sé gert svo endirinn leki ekki á netið og fólk eyðileggi hann.“
Þar að auki lét hann hafa eftir sér að persóna sín, James Gordon, og skúrkurinn Bane, sem leikinn verður af Tom Hardy, munu verða á vegi hvors annars. „Ég hef þónokkuð mikið að gera með Tom í þessari.“
– Bjarki Dagur