Óskarsverðlaunaleikkonan Sandra Bullock hefur gagnrýnt launamisrétti kynjanna sem ríkir í Hollywood. Tilefnið er grein sem leikkonan Jennifer Lawrence skrifaði um málefnið í síðustu viku og vakti mikla athygli.
„Mín spurning snýst ekkert endilega um launin sjálf heldur launamuninn, sem er hluti af einhverju stærra,“ sagði Bullock þegar hún var að kynna sína nýjustu mynd, Our Brand is Crisis.
„Ég hef sagt þetta svo oft en enginn getur gefið mér svar eða vill svara spurningunni: Hvers vegna eru konur ekki hærra metnar? Af hverju er þessi hugsun látin viðgangast? Ég kenni sjálfri mér líka um þetta,“ sagði hún í frétt Reuters.
Í grein Jennifer Lawrence kom fram að hún sé orðin þreytt á því að vera góð og krútttleg þegar kemur að samningaviðræðum um laun.