Gagnrýni: The Human Centipede 2

Þegar Tom Six gerði fyrstu Human Centipede-myndina sýndi hann heiminum hversu sjúkt ímyndunarafl hann hefur, og með henni vildi hann hneyksla hina viðkvæmu og skapa umtal með einungis grunnhugmyndinni (og læknisfræðilegu nákvæmni hennar). En fyrir utan þessa smekklegu hugmynd var lítið annað útpælt hjá Six. Myndin hafði eina dúndurgóða frammistöðu, annars ekkert innihald, enga spennu og persónurnar fengu svo óþægilega þjáningu að maður vildi frekar sjá þau deyja sem fyrst í stað þess að lifa í gegnum þennan viðbjóð. Six gerði lítið annað en að eyða heimskulega löngum tíma í að byggja upp hina óhjákvæmalegu aðgerð sem myndin fjallar um, bara til þess að mjaka því síðan framan í smettið á manni – í óhuggulega langan tíma – hvað þjáningin er mikil. Takk æðislega, Tom. Ég var nefnilega ekki viss fyrirfram!

Hryllingsmyndaaðdáendur voru þó sumir fyrir vonbrigðum þegar þeir sáu að tilhugsunin á bakvið myndina hafi verið það ógeðslegasta við hana. Sumir voru farnir að gera ráð fyrir algjörri byltingu í sjokk-factor. Six tókst alveg ætlunarverki sínu með að skapa umtal og fá suma til að efast um hvort þeir ættu að þora að leggja í áhorfið, en miðað við allt þetta hæp voru margir farnir að spyrja sig: Er þetta allt og sumt??

Undirheiti fyrstu myndarinnar, First Sequence, gaf að vísu til kynna að Six var bara rétt að byrja, og núna þegar hann er kominn út í Full Sequence ákveður hann að sjá til þess að þeir sem bjuggust við hrottalegum viðbjóði í fyrstu umferðinni fái nákvæmlega það sem þeir borguðu fyrir, margfölduðu með fjórum. Þegar Final Sequence lítur dagsins ljós getum við átt von á því að leikstjórinn verði búinn að missa vitið. Hann er búinn að lofa því að þriðja myndin láti þessa líta út eins og Disney-mynd í samanburði. Þetta er truflandi tilhugsun þegar Full Sequence er þegar meiri snöff-mynd heldur en A Serbian Film. Ég get skilið það þegar bíómyndir ganga yfir strikið til að gera sögur sínar erfiðari og átakanlegri, en það sem Six gerir er að fróa sér yfir tilhugsuninni um að vera umdeildur og djarfur á meðan hann skítur framan í myndavélina með spikfeittu glotti.

Söguþráðurinn má eiga það að vera forvitnilegur, en í hnotskurn gengur hann út á andlega skemmdan, lágvaxinn offitusjúkling sem verður kynferðislega örvaður þegar hann horfir á fyrstu Human Centipede-myndina (bara svipað og þegar ég horfi á Memento). Þetta leiðir til þess að hann ákveður að herma eftir myndinni, en bara á stærri mælikvarða sem er í senn miklu, miklu meira amatör, enda talsverður munur á því að vera lærður læknir og öryggisvörður í bílageymslu. Við fylgjumst síðan með þessum manni smám saman uppfylla drauminn sinn og í hvert sinn sem myndin fær tækifæri til þess að blóðmjólka ógeðisatriði, þá nýtir hún sér það eins og ekkert sé mikilvægara. Það má segja að fyrri myndin hafi leyft ímyndunaraflinu að ráða svolítið. Hérna kemur slíkt aldrei til greina.

The Human Centipede 2 (Full Sequence) er truflandi, grafísk, ósmekkleg í fimmta veldi og ógeðslega ljót mynd í eðli sínu sem neitar að vera nokkuð annað heldur en það. Six gerir ýmsa nýja hluti og býr til furðulega artý gjörning sem gengur aðeins út á það að reyna á þolinmæði (og maga) áhorfandans. Þessi rússíbani í gegnum ógeðfelldu hugsanir leikstjórans vekur upp nokkrar áhugaverðar pælingar um hvernig áhrif bíómyndir geta haft á hina skemmdustu aðila, og metanarrative-nálgunin á „sögunni“ er óneitanlega áhugaverð og sniðug. En ef Six er að reyna að segja eitthvað með myndinni, þá kemur hann því til skila mjög fljótlega. Restin er svo bara pyntingarklám á hæsta stigi, og ef þér finnst þetta vera eins og bara hver önnur afþreying, þá vorkenni ég þér ansi mikið. Ég tel mig hafa ansi hátt þol fyrir svona bíói, en eftir að maður er búinn að heyra fórnarlömb öskra og grenja úr sér augnsteinanna í rúman hálftíma, hvað þá þegar 10 manns eru föst saman, þá fer manni að langa í góða sturtu, bara til að skola myndina burt úr minningunni.

Að minnsta kosti get ég sagt að A Serbian Film hafi gengið út á ýmislegt meira heldur en bara viðbjóðinn. Í þeirri mynd var hann notaður sem hálfgert vopn til að keyra mjög ógeðfelldan söguþráð sem hafði nokkur skilaboð. Human Centipede 2, alveg eins og forveri sinn, hefur takmörkuð markmið annað en þau að hún vill að þér finnist hún svo ógeðsleg að þú hættir ekki að tala um hana. Umtalaðasta senan í fyrri myndinni er síðan tekin upp á mun hærra stig hér sem undirstrikar það hversu mikill aulabrandari myndin er. Six valhoppar eins og kátur krakki yfir kúk- og piss húmornum (mínus pissið) og teygir lopann eins og hann mögulega getur, bara til að vera viss um að það séu engar líkur á því að þér finnist þetta ekki ógeðslegt. Ætlunarverkinu var greinilega náð, jafnvel þótt það hafi aldrei komið til greina að búa til góða mynd úr þessu.

Ég veit svosem ekki hvað hefði verið hægt að gera til að gera þetta að góðri mynd, þannig að ég held að þessu hafi verið óviðbjargandi frá byrjun. Einhvers konar spenna, athyglisverðar sálfræðipælingar eða kannski einhver sub-plott, svo hún sé ekki svona einhæf, hefðu kannski getað gert þetta betra en þegar uppi er staðið er þetta ekkert annað en grimm æfing í að gera það sem má ekki. Six er alltof sjálumglaður og barnalegur til að geta fókuserað á eitthvað annað með þessum myndum en að láta persónur skíta ofan í kokið á öðrum. Þegar uppi er staðið er það nákvæmlega það eina sem þessar myndir ganga út á, og það er það eina sem flestir eiga eftir að muna eftir. Öll önnur misþyrming er sennilega einhver bónus til að fylla upp í lengdina.

Eina ástæðan af hverju mér fannst þessi örlítið betri en hin er sú að hún gerist frá sjónarhorni illmennisins og reynir að vera einhvers konar létt karakterstúdía á sorglega kvikindið sem það er. Auk þess er ómögulegt að neita því að Laurence R. Harvey er hreinlega fæddur í það að leika sveittan og sorglegan fituhlunk sem segir aldrei neitt. Margir munu velta því fyrir sér hvort þetta séu í alvörunni augun á honum, eða linsur. Tékkið á manninum og giskið sjálf áður en þið leitið svarsins á netinu. Dieter Laser gat ekki fengið betri arftaka, enda hálfgert blómabarn í samanburði.

The Human Centipede 2 er minna bíómynd og meira áskorun. Þetta er mynd sem vinahópar munu vilja kíkja á einungis til að sjá hversu sjúk hún er, bara til að geta sagst hafa séð hana. Ég var meira að segja sjálfur þónokkuð forvitinn fyrirfram en eftir því sem lengra leið á myndina fór mér bara að finnast eins og leikstjórinn væri að hlæja að mér fyrir að hafa ekki staðist freistinguna. Hann veit hversu ruddalega forvitinn við getum öll verið, og með því að gefa honum pening erum við að styrkja egóið hans. Reynið helst að koma í veg fyrir að það gerist. Þriðja myndin verður gerð hvort sem okkur líkar það betur eða verr.


(4/10)

Hvernig fannst þér The Human Centipede 2?