Gagnrýni: Hangover Part III

The Hangover Part III

Einkunn: 2/5

the-hangover-part-3-first-lookThe Hangover Part III er loka hnykkurinn í einum vinsælasta grín-þríleik allra tíma sem segir söguna af þeim Phil, Alan, Stu og Doug. Myndin skartar sem fyrr þeim Zach Galifianakis, Ed Helms, Justin Bartha og Bradley Cooper . Ken Jeong snýr einnig aftur í hlutverk sitt sem Chow og þá er John Goodman kynntur til leiks sem glæpakóngurinn Marshall.

Zach Galifianakis er nokkurn veginn í aðalhlutverki í The Hangover Part III sem hinn óútreiknanlegi karakter Alan sem nú er orðinn 42 ára gamall. Fátt hefur breyst hjá Alan frá því í Hangover og Hangover Part II, hann býr enn í foreldrahúsum og er algjörlega háður foreldrunum enda gjörsamlega laus við alla skynsamlega og eðlilega hugsun. Eftir ansi stórkostlegt byrjunaratriði þar sem Alan veldur stórslysi á hraðbrautinni, fær pabbi hans hjartaáfall. Eftir það á Alan erfitt uppdráttar og fjölskylda hans, með hjálp þeirra Phil, Stu og Doug, sannfærir hann um að fara á meðferðarheimili. Alan virðist tregur til að samþykkja þetta en þegar þeir Phil, Stu og Doug bjóðast til að skutla honum þangað ákveður hann að slá til.

Þeir félagarnir komast þó ekki á leiðarenda þar sem þeim er rænt á leiðinni af glæpamanninum Marshall og mönnum hans. Marshall þessi vill ólmur ná í skottið á litla taílenska krimmanum Chow sem er nú sloppinn úr fangelsi og hefur verið í bréfaskrifum við Alan. Marshall kemur þeim félögunum í skilning um að Chow hafi stolið frá honum gullstöngum sem hann vill augljóslega fá tilbaka og hann telur að þeir félagarnir séu hans besta von um að ná til Chow. Hann tekur því Doug sem tryggingu þar til þeir Phil, Stu og Alan hafa fært honum Chow. Hefst þá leitin að Chow sem m.a. dregur þá félagana á fornar slóðir í Las Vegas.

Á heildina litið er Hangover Part III nokkuð langt frá upprunanum hvað varðar hangover-part-3-trailer-leadskemmtanagildi og ferskleika, ef svo má að orði komast. Húmorinn var til staðar upp að ákveðnu marki en hvergi nær jafn beittur og frumlegur líkt og í fyrstu Hangover myndinni – og já á meðan ég man; það vaknar enginn þunnur! Myndin á nokkra ágæta spretti en því miður var maður búinn að sjá þá flesta í stiklunni. Mín meðmæli eru því sú að reyna að sleppa því að sjá stikluna áður en farið er á myndina. Doug og Stu, sem óneitanlega settu svip sinn á fyrstu tvær myndirnar, fá úr litlu að moða í þetta skiptið á meðan athyglin er að mestu leyti á þeim Alan og Chow, sem því miður ná ekki sömu hæðum og þeir náðu í fyrstu tveimur myndunum.

the-hangover-part-iii-3aAð þessu sögðu er Hangover Part III nokkuð auðgleymanleg. Búið er að taka allan neista úr karakterunum og sögunni sjálfri, sem var svo ógleymanleg í fyrstu myndinni. Eins og áður segir skortir Hangover Part III allan frumleika og neista og fyrir vikið verða karakterarnir hálf flatir og bitlausir, a.m.k. þeir Stu, Phil og Doug. Það hefði verið óskandi að hægt hefði verið að klára þennan þríleik með glæsilegri hætti en raun ber vitni, einfaldlega þar sem aðdáendur fyrstu myndarinnar eiga betra skilið en þetta.