Síðastliðin sex ár hafa menn vonast eftir framhaldi á karlfyrirsætugamanmyndinni Zoolander eftir Ben Stiller sem leikstýrði myndinni, skrifaði handritið og lék titilkarakterinn, Zoolander sjálfan. Um daginn sögðum við frá því hér að Stiller væri enn að bíða eftir nógu góðu handriti.
Fyrir um ári síðan sagði Owen Wilson, sem lék karlfyrirsætuna Hansel, að framhaldið myndi gerast tíu árum eftir atburði fyrri myndarinnar og í millitíðinni hafi Hansel lent í slysi sem hafi breytt útliti hans algjörlega.
Allra nýjustu fréttir koma úr breska blaðinu The Telegraph þar sem segir að engri annarri en Íslandsvininum Lady Gaga ( Gaga og Stiller: tveir Íslandsvinir í sömu mynd! ) hafi verið boðið hlutverk í Zoolander 2. Þar segir jafnframt að í myndinni keppi Hansel og Zoolander um ástir sömu stúlkunnar, sem yrði leikin af Gaga.
Gaga er annars að feta sig markvisst inn á leiklistarbrautina, og mun leika í myndinni Machete Kills á næsta ári undir stjórn Robert Rodriguez.
Þess ber að geta að The Telegraph hefur sína frétt upp úr æsifréttablaðinu The Sun, þannig að það er hollast að taka þessu með smá fyrirvara.
Zoolander 2 kemur að öllum líkindum í bíó árið 2014.