Fyrstu orð Loga í Star Wars: The Last Jedi

Hluthafar Disney fyrirtækisins urðu þess heiðurs aðnjótandi á nýafstöðnum aðalfundi félagsins að fá að sjá fyrsta myndbrotið úr næstu Star Wars mynd, Star Wars: The Last Jedi. 

Bandaríska dagblaðið The Los Angeles Times segir að brotið hafið verið sýnt á fundinum, sem var haldinn í Colorado ráðstefnuhöllinni í Denver. Brotið sýnir framhald lokaatriðis síðustu myndar, The Force Awakens, þar sem söguhetja myndarinnar Rey (Daisy Ridley), hittir Loga geimgengil, (Mark Hamill)  á felustað sínum efst á klettadranga.

Í myndbrotinu sem sýnt var spyr Logi Rey: „Hver ertu?“ Rey bregst við með því að rétta honum geislasverð sitt.

Aðrar persónur sem koma fyrir í myndbrotinu eru Chewbacca, Finn (John Boyega) og Carrie Fisher heitin, í hlutverki sínu sem Leia prinsessa. Fisher lauk leik í myndinni sex mánuðum áður en hún lést í desember sl.

Áður en myndbrotið var sýnt, sagði forstjóri Disney, Bob Iger: „Við erum ekki vön að sýna mikið fyrirfram úr Star Wars myndunum. Við viljum halda þeim leyndum. En við gerum undantekningu í dag. Við ætlum að sýna ykkur hvað gerist strax eftir lokaatriði síðustu myndar, þegar geislasverðið ratar til eiganda síns.“

Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Rian Johnson. The Last Jedi er önnur myndin í framhaldsþríleik Star Wars myndanna. Fyrsta myndin, The Force Awakens, var tekjuhæsta mynd allra tíma bæði í Bandaríkjunum og í Bretlandi.

Star Wars: The Last Jedi kemur í bíó 15. desember nk.