Fyrstu myndirnar úr Macbeth litu dagsins ljós fyrir stuttu, en kvikmyndin er byggð á klassísku verki eftir William Shakespeare og er leikstýrt af Justin Kurzel, sem á aðeins tvær kvikmyndir í fullri lengd að baki.
Í aðalhlutverkum eru þau Michael Fassbender og Marion Cotillard. Kvikmyndin skartar einnig þeim Paddy Considine, David Thewlis, Sean Harris, Jack Reynor og Elizabet Debicki.
Macbeth fjallar um miskunnarlausan og metnaðargjarnan skoskan lávarð sem nær völdum í Skotlandi með hjálp undirförular eiginkonu sinnar og þriggja norna. Myndin mun gerast á 11. öld og verður upprunalegur texti Shakespeare notaður.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Macbeth ratar á hvíta tjaldið og hafa leikstjórar á borð við Roman Polanski, Orson Welles, Geoffrey Wright og fleiri gert myndir um þessa klassísku persónu.
Macbeth er áætluð til sýninga á næsta ári. Hér að neðan má sjá fyrstu myndirnar úr kvikmyndinni.