Joseph Gordon-Levitt fer með hlutverk bandaríska uppljóstrarans Edward Snowden, í ævisögulegri mynd í leikstjórn Oliver Stone. Tökur á myndinni hófust fyrir stuttu og er framleiðsluteymi myndarinnar ekkert að leyna verkefninu fyrir okkur, því strax eftir nokkra tökudaga voru birtar opinberlegar myndir af Levitt í hlutverkinu.
Gordon-Levitt, sem lék síðast í Sin City: A Dame To Kill For, er einn eftirsóttasti ungi leikarinn í Hollywood. Meðal kvikmynda sem leikarinn hefur leikið í má nefna The Dark Knight Rises, 50/50 og Inception.
Stone, sem er þekktastur fyrir Óskarsverðlaunamyndirnar Platoon og Born on the Fourth of July, skrifaði sjálfur handritið og byggði það á tveimur bókum um Snowden – The Snowden Files: The Inside Story of the World´s Most Wanted Man, eftir Luke Harding, og Time of the Octopus, eftir Anatoly Kucherena.
Edward Snowden verður eflaust minnst sem einn helsti uppljóstrari 21. aldar en mál hans komust í hámæli þegar upp komst að hann hafði lekið upplýsingum til fjölmiðla um persónunjósnir breskra og bandarískra yfirvalda.