Fyrsta stiklan úr 300: The Rise of an Empire!

Margir hafa beðið í ofvæni eftir að sjá fyrstu stikluna úr annarri 300 myndinni, 300: The Rise of an Empire. Nú er dagurinn loksins runninn upp, en Warner Bros gaf út fyrstu stikluna í morgun fyrir myndina.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

300 sló í gegn þegar hún var frumsýnd árið 2006, en myndinni var leikstýrt af Zack Snyder, leikstjóra Man of Steel, og var með Gerard Butler í aðalhlutverkinu.

Í 300: Rise Of An Empire, þá notar persneska drottningin Artemisia, sem leikin er af Eva Green, allan sjóher sinn til að ráðast á Grikki, en leiðtogi þeirra er stjórnmálamaðurinn og hershöfðinginn Themistocles, sem leikinn er af Sullivan Stapleton. Sverð, axir, bogar og örvar, hnífar, eldur, skip, hestar, dauði og eyðilegging, kemur allt við sögu í myndinni, eins og hægt er að fá nasasjón af í stiklunni hér fyrir ofan.

300

 

Í myndinni snúa þau aftur þau Lena Headey og Rodrigo Santoro sem Gorgo drottning og Xerxes, ásamt nýliðunum Stapleton, Green og Hans Matheson. Butler er hins vegar fjarri góðu gamni, enda gáfu endalok fyrri myndarinnar ekki tilefni til endurkomu.

Leikstjóri er Noam Murro og handritið skrifa Zack Snyder og Kurt Johnstad, og byggja það á teiknimyndasögu Frank Miller, Xerxes.

Snyder er framleiðandi, ásamt Mark Canton, Gianni Nunnari, Deborah Snyder og Bernie Goldmann. 

Söguþráðurinn er á þessa leið: Eftir sigurinn á Leonidas í fyrri myndinni, 300, þá stefnir persneski herinn undir stjórn Xerxes í átt að stærstu grísku borgríkjunum. Lýðræðisborgin Aþena, verður fyrst á vegi hers Xerxes, en hún býr yfir góðum sjóher, undir stjórn hershöfðingjans Themistocles. Themistocles neyðist til að gera samkomulag við andstæðinga sína í borgríkinu Sparta, en styrkur þess liggur í vel þjálfuðum her. En Xerxes býr enn yfir ofurefli liðs, bæði á sjó og landi.

Myndin kemur í bíó í mars á næsta ári, 2014.