Breski leikarinn Benedict Cumberbatch hefur skotist hratt upp á stjörnuhiminninn og virðist fá öll bestu hlutverkin í Hollywood þessa dagana. Nýjasta hlutverk hans er í kvikmyndinni The Fifth Estate, þar sem hann fer með hlutverk stofnanda Wikileaks, Julian Assange.
Fyrsta stiklan úr The Fifth Estate minnir óneitanlega á The Social Network. Munurinn er að sjálfsögðu sá að síða Assange snýst ekki um að bæta tengsl við vini eða ættingja, heldur uppljóstra heiminn um leynilegar upplýsingar yfirvalda. Tímasetningin á stiklunni kemur einnig á réttum tíma, því mál Edward Snowden er í hugum margra.
The Fifth Estate var að hluta til kvikmynduð á Íslandi og var kvikmyndateymið í nokkra daga hér á landi. Austurvöllur var kvikmyndaður bak og fyrir og Egill Ólafsson lék í mikilvægu atriði. Fyrirtækið True North aðstoðaði DreamWorks við tökurnar.
The Fifth Estate verður frumsýnd í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum 15. nóvember. Með aðalhlutverk fara Benedict Cumberbatch, Daniel Brühl, Laura Linney, Anthony Mackie, David Thewlis, Peter Capaldi, Dan Stevens, Alicia Vikander og Carice van Houten, sem leikur Birgittu Jónsdóttur, þingmann.