Fyrsta ljósmyndin af breska leikaranum Daniel Craig í hlutverki James Bond í næstu Bond mynd No Time to Die hefur verið birt.
Myndin birtist í kjölfar þess að tilkynnt var á Instagram síðu kvikmyndarinnar að tökum væri lokið, en með færslunni birtist ljósmynd af Craig ásamt leikstjóra myndarinnar, Cary Fukanaga.
Það var kvikmyndaritið Empire sem birti ljósmyndina.
Samkvæmt opinberum söguþræði myndarinnar þá hefst kvikmyndin þar sem Bond er að slaka á í Jamaíka, eftir að hafa lagt byssuna á hilluna. En allt það breytist þegar gamall vinur hans Felix Leiter frá bandarísku leyniþjónustunni CIA kemur og biður um aðstoð. Í hönd fer björgunaraðgerð til að bjarga vísindamanni sem hefur verið rænt, en þessi ferð verður mun hættulegri en búist var við, og 007 kemst á slóð dularfulls þorpara, sem býr yfir stórhættulegri nýrri tækni, en þetta erki-illmenni er leikið af engum öðrum en Óskarsverðlaunahafanum, og Bohemian Rhapsody leikaranum, Rami Malek.
Ralph Fiennes snýr aftur í hlutverki M í nýju myndinni, og Léa Seydoux verður aftur í hlutverki Dr Madeleine Swann. Ben Whishaw verður Q á ný.
Hér fyrir neðan er fyrsta myndin af Craig í hlutverkinu í nýju myndinni:
No Time to Die verður frumsýnd 8. apríl hér á Íslandi, en 3. apríl í Bretlandi.