Fyrsta hátíð Ófeigs

Gaman-draugamyndin Ófeigur gengur aftur í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar tekur þátt í sinni fyrstu kvikmyndahátíð í október nk. Hátíðin heitir Mill Valley Film Festival,  í Mill Valley í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum og stendur frá 3. til 13. október.

ófeigur

Myndin fjallar um Ófeig sem er nýlátinn en andi hans neitar að halda yfir móðuna miklu og heldur til í sínu gamla húsi þar sem þau Anna og Ingi búa núna. Þar fylgist hann með öllu og er óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós. Þegar Anna og Ingi ráðgera að selja húsið bregst Ófeigur ókvæða við þannig að Ingi ákveður að leita ráða í gamalli galdrabók til að losna við hann fyrir fullt og allt. Þær áætlanir bregðast hins vegar þegar tilraunir til að særa Ófeig út úr húsinu hafa þveröfug áhrif og vekja þess í stað upp nýjan draug, fyrrverandi unnustu Ófeigs sem óhætt er að segja að sé smáklikkuð í ofanálag. Við komu hennar magnast reimleikarnir í húsinu um allan helming. Þegar Ófeigur ber sig til við að beita valdi til að varpa konu með miðilsgáfu út úr húsinu verður ljóst að nú duga ekki lengur nein vettlingatök …

Af öðrum myndum sem eru á hátíðarflakki, þá fylgir XL eftir Martein Þórsson eftir góðu gengi sínu á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni þar sem Ólafur Darri Ólafsson var valinn besti leikari í aðalhlutverki, með því að fara á Vancouver International Film Festival, Calgary International Film Festival og Bergen Internasjonale Filmfestival.

XL er svona blanda af The Hangover, Fear and Loathing in Las Vegas og Memento. Fjölskyldumaðurinn fyrrverandi, flagarinn óstýriláti og áfengisþyrsti þingmaðurinn Leifur Sigurðarson er skikkaður í meðferð af vini sínum og yfirmanni, forsætisráðherra Íslands – en áður en hann lætur flengja sig opinberlega heldur Leifur vinum sínum matarboð. Á meðan á því stendur kynnumst við gestum og gestgjafa betur og lærum um dramatíska og grátbroslega fortíð hópsins og sérstaklega ástarsamband Leifs við hina tvítugu Æsu sem jafnframt er vinkona dóttur hans. Eftir því sem Leifur djúsar meira koma fleiri leyndarmál í ljós uns það er tímabært að drífa sig heim, eða hvað? Aðeins þeim sem hafa aldur til að kjósa þingmanninn er boðið í partýið.