Hollywood framleiðandinn The Weinstein Company hefur ákveðið að færa frumsýningardag myndarinnar The Founder, sem við höfum sagt frá hér á síðunni, og fjallar um manninn sem gerði McDonalds að risafyrirtæki, Ray Krock, leikinn af Michael Keaton, inn í hið svokallaða verðlaunatímabil ( awards season ) í Bandaríkjunum.
Nokkuð flakk hefur verið á frumsýningardeginum. Upphaflega átti að frumsýna myndina 25. nóvember, en hún var svo færð til 5. ágúst 2016. Nú hefur verið ákveðið að frumsýna hana í takmarkaðri dreifingu þann 16. desember, en síðan í allsherjardreifingu um öll Bandaríkin 20. janúar, 2017.
Með þessu vonast framleiðendur til að myndin vekji athygli Óskarsakademíunnar, en Óskarsverðlaunin verða veitt í febrúar á næsta ári.
Aðrar myndir sem frumsýndar verða í desember eru m.a. Star Wars: Rogue One og Will Smith dramað Collateral Beauty.
Í janúar mætir The Founder samkeppni frá myndum eins og XXX: The Return of Xander Cage og hrollvekjunni Split.