Frumsýningardagar mynda eru oft ákveðnir langt fram í tímann, og því er óvarlegt að treysta 100% á þá þar sem þeir geta breyst á síðustu stundu.
Nú voru að berast fréttir af nokkrum breytingum sem er verið að gera á síðustu stundu. Frumsýning á The Hangover Part III í Bandaríkjunum hefur verið færð fram um einn dag til fimmtudagsins 23. maí samkvæmt Exhibitor Relations vefsíðunni, en hún tilkynnir þetta á Twitter síðu sinni.
Síðan segir að tilfærslan sé gerð til að ná smá forskoti á nýju Fast & Furious myndina, þá sjöttu í röðinni, en hún er að koma í bíó þessa sömu helgi. Talið er að myndirnar höfði til sama markhóps og því er mikill slagur framundan um bíógestina, en með þessari tilfærslu gæti fólk farið að sjá Úlfagengið í The Hangover á fimmtudegi og skellt sér svo á bílahasarinn í Fast 6 daginn eftir.
Jurassic Park frestast
Þá hafa borist fregnir af því að búið sé að seinka frumsýningu Jurassic Park 4, en myndin átti upphaflega að vera frumsýnd 13. júní 2014. Samkvæmt Deadline þá er ekki kominn nýr frumsýningardagur á myndina, en hann mun verða tilkynntur bráðlega.
Tilfærslan á Jurassic Park 4 skapar svo aftur rými fyrir aðrar myndir. Sony framleiðslufyrirtækið var búið að ákveða að frumsýna 21 Jump Street 2 þann 6. júní 2014, en einmitt þá helgi verður samkeppnin hörð við Teenage Mutant Ninja Turtles endurræsinguna, ásamt því að Pixar myndin The Good Dinosaur verður frumsýnd helgina á eftir, eins og Jurassic Park IV átti að vera sömuleiðis.
Samkvæmt Deadline hafa Sony menn nú ákveðið að nýta sér rýmið sem frestun Jurassic Park 4 gefur, og hafa fært 21 Jump Street 2 til 13. júní, hins gamla frumsýningardags Jurassic Park 4. Sony vonar með þessu útspili sínu að menn flykkist í bíó þennan dag að sjá þá Channing Tatum og Johan Hill endurtaka leikinn í 21 Jump Street 2, fyrst risaeðlurnar eru á bak og burt.