Frumsýning: Jack The Giant Slayer

Sambíóin frumsýna nýjustu mynd leikstjórans Bryan Singer, Jack The Giant Slayer, á næsta föstudag, þann 22. mars. Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að myndin byggi „í besta falli afskaplega lauslega á hinu klassíska ævintýri um Jóa og Baunagrasið. Söguþráðurinn er ekki sá sami þó að vissulega spili baunagras og risar stórt hlutverk í myndinni.“

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan.

Myndin fjallar um ungan bóndason sem opnar leiðina frá jörðu til ríkis risanna sem hafa beðið um aldir eftir tækifæri til að hefna sín á mönnunum sem gerðu þá brottræka frá jörðu.

„Það er hinn stórgóði breski leikari Nicholas Hoult (lék R í Warm Bodies) sem fer með aðalhlutverkið í þessari þrívíddarsnilld leikstjórans Bryans Singer (X-Men, The Usual Suspects, Valkyrie, Superman Returns) ásamt þeim Stanley Tucci, Ewan McGregor, Bill Nighy, Elenor Tomlinson og Ian McShane.“

Jack er bóndasonur sem verður yfir sig hrifinn af prinsessunni Isabellu þegar hún bankar upp á hjá honum eitt rigningarkvöldið, rammvillt. Um leið opnar hann óvart leiðina upp í ríki risanna þegar gríðarlega stórt baunagras vex í gegnum hús hans, hrífur Isabellu með sér og ber hana alla leið upp til risanna sem fanga hana í búri og hugsa sér gott til glóðarinnar.

Þegar konungur ríkisins fréttir hvað hefur gerst fyrirskipar hann sínum bestu mönnum að halda í björgunarleiðangur upp eftir baunagrasinu og frelsa Isabellu, hvað sem það kann að kosta. Jack getur auðvitað ekki setið hjá og býður sig fram í leiðangurinn með hugrekkið eitt að vopni.

Þar með er hafið magnað ævintýri …

 

Aðalhlutverk: Nicholas Hoult, Stanley Tucci, Ewan McGregor, Bill Nighy, Elenor Tomlinson og Ian McShane

Leikstjórn: Bryan Singer

Sýningarstaðir: Sambíóin Egilshöll, Álfabakka, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, Króksbíó, Bíóhöllin Akranesi og Ísafjarðarbíó

Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans.

• Þótt efniviður myndarinnar sé vissulega sóttur í hið kunna ævintýri um Jóa og baunagrasið er þó alls ekki um sömu sögu að ræða heldur miklu fremur glænýja sýn á hana.

• Myndin var tekin upp í Englandi síðastliðið vor og eru flest útiatriðin kvikmynduð í Somerset, Norfolk og Surrey.