Sambíóin frumsýna myndina Don Jon á föstudaginn næsta, þann 27. september. Þetta er fyrsta myndin sem leikarinn Joseph Gordon-Levitt leikstýrir. „Joseph Gordon-Levitt , Scarlett Johansson og Julianne Moore í ferskustu mynd ársins um klámmyndafíkilinn Jon. Ögrandi svört komídía eins og þær gerast bestar, “ segir í tilkynningu frá Sambíóunum.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Við fyrstu sýn virðist Jon Martello vera með allt á hreinu. Hann hugsar afar vel um stæltan líkamann, leggur sig fram við að hafa allt eins og best verður á kosið í íbúðinni sinni, ekur um á draumakagganum, er sannarlega vinur vina sinna, heimsækir fjölskyldu sína reglulega og reynir að halda í heiðri þá kaþólsku siði sem hann var alinn upp við, í von um að sér verði fyrirgefin feilsporin.
Þau feilspor felast annars vegar í því að Don er forfallinn klámfíkill sem líður best með sjálfum sér að horfa á netklám, og hins vegar í því að hann nær sér í nýja stelpu í hverri viku án nokkurra áætlana um að festa ráð sitt og því síður að eignast börn eins og móðir hans vill að hann geri.
Dag einn hittir Don hina fögru Barböru sem heillar hann upp úr skónum og í fyrsta skipti á ævinni verður hann ástfanginn upp fyrir haus. Það á hins vegar eftir að reyna verulega á sambandið þegar Barbara kemst að klámfíkn Dons …
Aðalhlutverk: Joseph Gordon-Levitt, Scarlett Johansson, Julianne Moore, Tony Danza, Glenne Headly og Brie Larson
Leikstjórn: Joseph Gordon-Levitt
Bíó: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík
Aldurstakmark: 16 ára
Fróðleiksmolar til gamans:
• Þau Channing Tatum, Cuba Gooding Jr. og Anne Hathaway koma fram í myndinni í skemmtilegum aukahlutverkum. Þess má geta að Joseph Gordon-Levitt íhugaði á tímabili að fá Channing í aðalhlutverkið áður en hann ákvað að leika það sjálfur.
• Joseph Gordon-Levitt skrifaði hlutverk Barböru sérstaklega með Scarlett Johansson í huga, löngu áður en hann kom að máli við hana og bauð henni það.