Sambíóin frumsýna gamanmyndina Anchorman 2: The Legend Continues á föstudaginn næsta þann 20. desember.
„Ron Burgundy er mættur aftur í jólagrínmyndinni í ár, ANCHORMAN 2. Frábær grínmynd með heilum haug af stórleikurum,“ segir í tilkynningu frá Sambíóunum.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Fréttahaukurinn Ron Burgundy sem þráir ekkert heitar en frægð, frama og flotta hárgreiðslu er mættur á svæðið aftur og nú á aldeilis að taka hlutina með trompi.
„Kvikmyndin Anchorman: The Legend of Ron Burgundy sem var frumsýnd sumarið 2004 er án nokkurs vafa ein alskemmtilegasta gamanmynd síðari ára. Í henni fóru Will Ferrell og félagar á algjörum kostum í óhefluðu gríni þar sem heimskan fékk að flæða í stríðum straumum þannig að úr varð stanslaus hláturveisla fyrir áhorfendur.“
Síðan eru liðin níu ár og þótt Ron Burgundy hafi ekki þroskast mikið vitsmunalega er hann reynslunni ríkari, eða ætti a.m.k. að vera það. Það er sennilega ástæðan fyrir því að honum er boðið að gerast fréttaþulur á glænýrri sjónvarpsstöð, GNN, sem jafnframt er fyrsta fréttastöðin sem sendir út 24 klukkutíma á sólarhring.
Ron ákveður auðvitað að þekkjast boðið og heldur til New York ásamt veðurfræðingnum vitlausa, Brick, söguskoðaranum Brian og íþróttafréttamanninum Champ Kind. Og auðvitað er eiginkonan, Veronica Corningstone, ekki langt undan …
Aðalhlutverk: Will Ferrell, Steve Carell, David Koechner, Paul Rudd og Christina Applegate
Leikstjórn: Adam McKay
Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Smárabíó, Laugarásbíó, Selfossbíó, Króksbíó, Ísafjarðarbíó og Bíóhöllin Akranesi
Aldurstakmark: 10 ára
Fróðleiksmolar til gamans:
• Eins og í fyrri myndinni um Ron Burgundy og félaga kemur fjöldi þekktra leikara fram í misstórum hlutverkum í Anchorman 2: The Legend Continues og má þar nefna þau Vince Vaughn, Harrison Ford, Jim Carrey, John C. Reilly, Sacha Baron Cohen, Nicole Kidman, Tinu Fey, Liam Neeson, Kirsten Dunst, Kristen Wiig, James Marsden, Amy Poehler, Megan Good, Greg Kinnear, Luke Wilson og Kanye West og er þá bara hluti þeirra upp talinn.