Sambíóin frumsýna á föstudaginn næsta, þann 30. nóvember, bíómyndina Alex Cross – Morðingi gengur laus.
Alex Cross er nú mættur aftur í bíómynd, en myndirnar, Along Came a Spider og Kiss the Girls eru allar byggðar á metsölubókum James Patterson um lögreglumanninn Alex Cross.
Sjáðu stikluna hér að neðan:
Söguþráðurinn er þessi: Þegar kona sem lögreglumaðurinn Alex Cross þekkir er myrt á hrottalegan hátt sver hann þess eið að ná þeim sem verknaðinn framdi. Hann veit hins vegar ekki að um leið er hann að stíga út í botnlaust kviksyndi.
Nótt eina fær Alex Cross símtal frá kollega sínum sem biður hann að heimsækja nýuppgötvaðan morðvettvang, en hann er vægast sagt óhugnanlegur. Kona hefur verið myrt og ekki nóg með það heldur hefur morðinginn greinilega kvalið hana til dauða af ólýsanlegri grimmd.
Alex verður strax ljóst að í þessu máli er ekki við neinn venjulegan mann að glíma heldur hrotta sem svífst einskis …
Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að Alex Cross sé mynd sem ætti að falla í kramið hjá þeim sem kunna vel að meta hraða, spennu og mögnuð áhættuatriði, en leikstjóri myndarinnar er Rob Cohen sem gerði m.a. myndina The Fast and the Furious og hleypti þar með þeirri seríu af stokkunum.
Það er Tyler Perry sem fer með hlutverk lögreglumannsins Alex Cross og Matthew Fox leikur hinn sturlaða morðingja Picasso sem nýtur þess að kvelja og drepa fórnarlömb sín. Myndin er lauslega byggð á bókinni Cross eftir James Patterson.
Aðalhlutverk: Tyler Perry, Matthew Fox, Rachel Nichols, Giancarlo Esposito, Jean Reno og Edward Burns
Leikstjóri: Rob Cohen
Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri
Aldurstakmark: 16 ára.
Fróðleiksmoli til gamans:
Matthew Fox, sem leikur hinn snargeðveika morðingja Picasso í Alex Cross, gekk í gegnum gríðarlega þrekþjálfun fyrir hlutverk sitt í myndinni enda óhætt að segja að hann sé í formi í henni. Þess má geta að Matthew lék eitt af aðalhlutverkunum í Lost-þáttunum, þ.e. Jack Shephard.