Fríða og dýrið stefnir í metaðsókn

Ævintýramyndin Beauty and the Beast, eða Fríða og dýrið eins og hún heitir á íslensku, er vinsælasta myndin í bíó í Bandaríkjunum þessa helgina samkvæmt aðsóknartölum gærdagsins, föstudagsins 17. mars. Myndin þénaði 63,8 milljónir bandaríkjadala þann dag og útlit er fyrir að hún muni þéna 170 milljónir dala yfir helgina alla. Að auki þá hafa 40,3 milljónir skilað sér í kassann utan Bandaríkjanna.

Emma Watson er aðal stjarna myndarinnar, Fríða. Dan Stevens leikur dýrið, en þekktir leikarar leika helstu aukahlutverk, eins og Luke Evans, Kevin Kline, Josh Gad, Ewan McGregor, Stanley Tucci, Audra McDonald, Gugu Mbatha-Raw, Ian McKellen og Emma Thompson. Bill Condon leikstýrir.

Skrímslamyndin Kong: Skull Island þénaði 7,3 milljónir dala í gær, en myndin var sú aðsóknarmesta um síðustu helgi í Bandaríkjunum.

Logan stefnir í að verða þriðja aðsóknarmesta myndin þessa helgina, með 4,7 milljónir dala í tekjur á föstudeginum.

Ef svo fer sem horfir mun Beauty and the Beast slá nokkur met eftir sýningar helgarinnar. Hún verður klárlega aðsóknarmesta mynd ársins hingað til, og mun einnig verða aðsóknarmesta mynd allra tíma í mars í Bandaríkunum, og slá þar með met Batman v Superman: Dawn of Justice, en hún þénaði 166 milljónir dala á frumsýningarhelgi sinni.