Frægur áhættuleikari látinn

shawnTökulið og leikarar í nýjustu mynd Mark Wahlberg og Kate Hudson, Deepwater Horizon, eru harmi slegin, eftir að einn af áhættuleikurum myndarinnar fannst látinn á hótelherbergi sínu í New Orleans í síðustu viku.

Leikarinn heitir Shawn Robinson, 41 árs, og var þekktur í faginu. Hann fannst látinn þann 28. júlí sl. eftir að hann hafði ekki mætt á tökustað, og annar áhættuleikari fór á stúfana að leita að honum.

Shawn var sonur hins goðsagnakennda áhættuleikara Dar Robinson, sem sjálfur lést með sviplegum hætti í slysi þegar mótorhjól sem hann ók fór fram af kletti, þegar hann var að taka upp myndina Million Dollar Mystery.

Shawn á einnig bróður sem er áhættuleikari, Troy, en hann vinnur sem staðgengill fyrir Vin Diesel. 

Dánarorsök er ókunn að svo stöddu.

Shawn lék í mörgum frægum myndum eins og öllum þremur Transformers myndunum, Guardians of the Galaxy, Captain America: The Winter Soldier, The Lone Ranger og X-Men: The Last Stand.