Bandaríski leikarinn Jamie Foxx hefur verið ráðinn (aftur) í hlutverk skúrksins Electro og mun hann bregða fyrir í komandi Spider-Man framhaldsmynd. Fréttamiðillinn The Hollywood Reporter greindi fyrst frá þessu og hafa ófáir aðdáendur Köngulóarmannsins klórað sér í hausnum yfir þessum tíðindum.
Foxx lék áður Electro – við blendnar viðtökur – í kvikmyndinni The Amazing Spider-Man 2 þar sem Andrew Garfield fór með aðalhlutverkið. Foxx mun að þessu sinni tilheyra allt öðrum kvikmyndaheimi og mætir nú Tom Holland í þriðju sjálfstæðu Spider-Man myndinni þar sem hann gengur með grímuna. Myndin er þar af leiðandi framhald myndanna Spider-Man: Homecoming og Far From Home.
Foxx er þó ekki eini leikarinn sem flyst yfir í nýja heim Köngulóarmannsins, eins og aðdáendur tóku eftir í Far From Home þegar J.K. Simmons skaut upp kollinum í gestahlutverki sem J. Jonah Jameson.
Upphaflega stóð til að frumsýna nýju myndina í sumar á næsta ári en eftir að kórónaveiran skall á frestaðist frumsýning til nóvembermánaðar 2021. Fyrr á þessu ári var gefið upp að Ísland yrði einn af tökustöðum þessarar myndar og er búist við að illmennið Sergei Kravinoff verði í brennidepli, en hann er betur þekktur sem Kraven og er af rússneskum uppruna. Sergei er af aðalsættum en fjölskylda hans flúði til Bandaríkjanna eftir rússnesku vetrarbyltinguna 1917. Markmið Sergeis er að veiða Köngulóarmanninn og drepa, til að sanna að hann sé besti veiðimaður veraldar.
Jon Watts mun leikstýra þriðju mynd sinni um þessa ofurhetjuna. Að utanskildum Holland og Foxx hafa leiri leikarar ekki verið staðfestir en búist er við því að þau Zendaya, Marisa Tomei, Tony Revolori og Jacob Batalon haldi áfram í hlutverkum sínum.