Við sögðum frá því fyrir helgi að leikarinn Harrison Ford þurfti að yfirgefa tökustað nýjustu Star Wars-myndarinnar vegna þess að hann meiddist á ökla. Leikarinn var fluttur með þyrlu á John Radcliffe-spítalann í Oxford þar sem hann gekkst undir læknisskoðun.
Í fyrstu var ekki vitað hvort um væri að ræða tognun eða brot, en um helgina bárust þær fregnir að Ford væri brotinn og yrði eflaust frá í einhvern tíma. Samkvæmt nýjustu heimildum vefsíðunnar Hollywood Reporter þá verður Ford frá í allt að átta vikur. Meiðslin munu þó ekki hafa nein áhrif á tökur og verður þeim haldið áfram.
Ford mun leika Han Solo í nýju Star Wars-kvikmyndinni, Episode VII, sem JJ Abrams leikstýrir. Áætlað er að kvikmyndin komi út í desember 2015.