Fleiri sögur úr Syndaborg

Það voru ýmsir orðrómar í gangi um að Robert Rodriguez ætti eftir að gera tvær framhaldsmyndir fyrir Sin City. Þetta er eitthvað sem hann persónulega leiðrétti og sagði að væri ekki í dagskránni.
Hins vegar segir hann að önnur mynd sé í planinu. Ekki er vitað hvort næsta Sin City-mynd verði samansett af nokkrum bókum Miller’s eins og síðast eða bara einni, en vitað er hingað til að bókin A DAME TO KILL FOR verði færð yfir á tjaldið. Þetta er önnur bókin í seríunni og gerist hún á undan atburðunum í The Big Fat Kill sögunni sem sást í bíómyndinni og fléttar hún jafnframt saman ýmsa þræði úr The Hard Goodbye plottinu (eins og þið kannski sjáið er ég mjög kunnugur þessum sögum, en það er allt annar handleggur).

Dame fjallar um Dwight (leikinn af Clive Owen í myndinni) og hvernig hann kemur til með að verða að þeim harða nagla sem hann er vanalega þekktur fyrir að vera eftir að hættulegt tálkvendi svíkur hann til nær dauða. Hann fær hjálp frá kunningjum sínum, þ.á.m. hinum sífellt skrautlega Marv (Mickey Rourke) og japanska drápskvendinu Miho (Devon Aoki).

Sin City 2 (ekki samt bóka það að hún muni ganga undir því heiti) mun hefja tökur sínar næsta janúar. Og þar sem að Rodriguez er mikið þekktur fyrir að skila myndum sínum á afar stuttum tíma mun hún mögulega koma sér í bíóin á sama ári. Annars er maðurinn með aðra fjölskyldumynd á leið, og ber hún hinn afar litríka titil The Adventures of Shark Boy & Lava Girl in 3-D (rétt, hún er í þrívídd). Sú mynd kemur til Íslands nú í ágúst.