Nú hreinlega hrynja inn fréttirnar um The Hobbit, sem ótalmargir bíða óþreyjufullir eftir að lendi í kvikmyndahúsum. Leikstjórinn, Peter Jackson, er nú á fullu að fá til sín leikara í myndina og hefur hann nú fengið til sín kunnulegt andlit.
Cate Blanchett mun endurtaka hlutverk sitt úr The Lord of the Rings seríunni og leika álfkonuna Galadriel. „Cate er ein uppáhaldsleikkonan mín og ég er gríðarlega ánægður að hún muni snúa aftur til þessa heims með mér.“
Þar að auki mun leikarinn Sylvester McCoy leika galdramanninn Radagast, en McCoy er hvað þekktastur fyrir leik sinn í Doctor Who sjónvarpsseríunni. Ken Stott hefur tekið að sér hlutverk dvergsins Balin og Mikael Persbrandt mun leika Beorn. Meðal annarra leikara eru hinn breski Ryan Gage og William Kircher.
The Hobbit verður skipt í tvo hluta og mun sá fyrri lenda í kvikmyndahúsum í lok árs 2012, en aðalhlutverkin eru í höndum Martin Freeman, Ian McKellen og Andy Serkis.
– Bjarki Dagur