Ferðast langar vegalengdir til þess að mennta sig

Föstudaginn 9. maí tekur Bíó Paradís til sýninga heimildamyndina Á leið í skólann (Sur le chemin de l’école) eftir Pacal Plisson sem fjallar um ferðalag fjögurra barna á leið sinni í skólann. Öll eiga þau það sameiginlegt að þurfa að ferðast langar vegalengdir til þess að geta uppfyllt drauminn, að mennta sig. Sagan gerist í Kenya, á Indlandi, Marokkó og í Argentínu og fær áhorfandinn að skygnast inn í líf þessara barna og þeirra áskorana sem þau þurfa að takast á við, til þess að komast í skóla.

On_the_way_to_school_stilla

Þessi gríðarlega vinsæla heimildarmynd segir frá þeim Jackson frá Kenía, Carlito frá Argentínu, Zahira frá Marakkó og Samuel frá Indlandi sem eiga það eitt sameiginlegt að þurfa að ferðast hrikalega langar vegalengdir til þess eins að komast í skólann. Myndin vann hin virtu Cesar verðlaun árið 2014 sem besta heimildamyndin.

Þar sem skólunum fer að ljúka fyrir sumartímann er því tilvalið að gera sér glaðan dag og forvitnast um ólíka menningarheima í þessari hugljúfu en afar áhrifaríku mynd sem lætur engann ósnortinn.

Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.