Iron Man 3 hóf tökur í þessari viku, og er ennþá að bæta við sig leikurum. Jon Favreau, leikstjóri fyrstu tveggja myndanna, staðfesti á twitter síðu sinni að hann myndi snúa aftur í hlutverk Happy Hogan, bílstjóra og trúnaðarvinar Tony Starks, sem hann lék í fyrstu tveimur myndunum.
Þessar fréttir eru ef til vill ekki svo óvæntar – Favreau hefur áður lýst yfir trausti sínu við Shane Black til að taka við seríunni – en það ætti samt að ylja aðdáendum Marvel myndanna um hjartaræturnar að öll dýrin í skóginum séu sannarlega vinir, og að enginn virðist vera sár lengur yfir vonbrigðunum sem Iron Man 2 voru. Þó hlutverk hans verði eflaust ekki stórt, verður gaman að hafa hann á staðnum. Þess má geta að Favreau var einnig framleiðandi The Avengers (allavega að nafninu til), og endur tekur það hlutverk bakvið tjöldin fyrir Iron Man 3.
Eins og áður segir leikstýrir Shane Black þessari þriðju mynd um járnmanninn, og skrifaði handritið ásamt Drew Pierce. Ásamt Favreau snúa Robert Downey Jr., Gwyneth Paltrow, og Don Cheadle aftur, og Guy Pearce, Ben Kingsley, James Badge Dale og Rebecca Hall hafa bæst í leikhópinn. Myndin verður frumsýnd ytra 3. maí 2013, og ef að Marvel heldur útgáfumunstri sínu megum við búast við henni einni viku fyrr hér á klakann.