Everest, mynd Baltasars Kormáks, hefur rofið 200 milljón dala múrinn í miðasölunni um heim allan, en það eru yfir 26 milljarðar króna.
Í Norður-Ameríku hefur myndin náð inn rúmum 43 milljónum dala í miðasölunni. Annars staðar í heiminum eru tekjurnar komnar í tæpar 160 milljónir dala, samkvæmt Boxofficemojo.com.
Everest kostaði 55 milljónir dala og því hefur Baltasar tekist að ávaxta pund framleiðandanna rækilega.
Næstvinsælasta mynd Baltasars, 2 Guns, kostaði 61 milljón dala og þénaði hún tæpar 132 milljónir dala í miðasölunni.
Þriðja vinsælasta mynd leikstjórans er Contraband. Hún náði inn 96 milljónum dala í miðasölunni um heim allan. Kostnaður hennar nam 25 milljónum dala.