Evangeline Lilly talar um Hobbitann

Nú hafa tökur á Hobbita myndum Peter Jacksons staðið í yfir hálft ár, og fór önnur tökublokk af þrem í gang í lok ágúst. Ein af þeim síðustu sem bættust við leikhópinn var Evangeline Lilly, sem er góðkunn sjónvarpsáhorfendum sem Kate Austen úr Lost. Hún mun leika skógarálfinn Tauriel, sem ekki kom fyrir í bókum Tolkiens. Því er ekki mikið vitað um persónuna, en nafnið þýðir Dóttir Myrkviðs. Það eina sem Jackson hefur staðfest er að ekki verði nein rómantík milli hennar og Legolas. Eins gott.

Viðtalið við Lilly, var tekið vegna vélmennaboxmyndarinnar Real Steel, sem kemur út 7. október. Það áhugaverðasta sem hún sagði sneri samt að Hobbitanum. Meðal annars kom fram að hún er ákafur Tolkien aðdáandi, og að fyrst þegar tilkynnt var að kvikmynda ætti Hringadróttinssögu hefði hún svarið þess eið að sjá myndirnar ekki, því að það væru helgispjöll að reyna að aðlaga verk Tolkiens. Svo lét hún tilleiðast og fór með fjölskyldu sinni, og heillaðist. „Það var göldrum líkast sem Peter Jackson áorkaði, því myndirnar voru frekar óður til bókanna en móðgun við þær“.

Þó er hún eðlilega stressuð að Tolkien- pjúristum muni ekki líka hlutverk hennar. Hinsvegar segist hún skilja vel hvers vegna persónu sinni, ásamt miklu bakgrunnsefni hafi verið bætt við. „Hobbitinn hafði enga kvenkyns karaktera og var eiginlega mjög línuleg barnabók. Það sem Peter, Fran og Philippa (handritshöfundarnir) hafa gert, samræmist allt veröld Tolkiens, en bætir þriðju víddinni við mjög tvívíða sögu.“

Hún talar líka um að hlutverkið henti henni, því hún hafi viljað eyða tíma með fjölskyldu sinni, og þurfi á því ári sem myndin verður við tökur aðeins að mæta stöku sinnum. Öðrum leikurum myndi henta illa að geta ekki unnið önnur verkefni á svo löngum tíma, en það henti henni fullkomlega. Saorsie Ronan, sem lengi var orðuð við svipað hlutverk í Hobbitanum, hafnaði því líklega á þessum forsendum, og er líklegt að Lilly fari nú með hlutverkið sem ætlað var Ronan.

Ég minni annars á stórskemmtilega facebook síðu Peter Jackson’s, þar sem meðal annars er hægt að sjá þrjú stórskemmtileg videoblogg frá honum, þar sem sýnt er bakvið tjöldin við gerð kvikmyndanna. The Hobbit: An Unexpected Journey er væntanleg í Desember 2012, og The Hobbit: There and Back Again í Desember 2013.