Fyrsta stiklan úr Marvel ofurhetjumyndinni Black Panther er komin út, en hún var frumsýnd í auglýsingahléi í einum af úrslitaleikjum Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers í NBA körfuboltanum í Bandaríkjunum.
Í stiklunni sjáum við bregða fyrir stórstjörnum eins og Lupita Nyong’o og Michael B. Jordan, ásamt auðvitað Chadwick Boseman, sem leikur hetjuna sjálfa, Black Panther.
Myndin segir frá T´Challa, sem Bosewick leikur, sem kom eftirminnilega fyrst við sögu í Captain America: Civil War. Hann snýr aftur til heimalands síns Wakanda ( skáldað ríki ) eftir dauða föður síns, sem var konungur landsins. „Þú ert góður og hjartahlýr maður, og það er erfitt fyrir góðan mann að vera kóngur,“ segir í stiklunni.
T´Challa tekur við krúnunni í Wakanda og þegar gamall andstæðingur, sem Michael B. Jordan leikur, birtist, þá þarf T´Challa að safna bandamönnum saman og vernda konungdæmið og örlög alls mannkyns.
Aðrir helstu leikarar eru Danai Gurira, Martin Freeman, Daniel Kaluuya, Angela Bassett, Forest Whitaker, Andy Serkis og Sterling K. Brown. Leikstjóri er Fruitvale Station og Creed leikstjórinn Ryan Coogler.
Kvikmyndin kemur í bíó 16. febrúar 2018.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: