Steve Norrington ( Blade ) , leikstjórinn knái, hlýtur að vera einn af uppteknustu mönnum í Hollywood. Hann hefur á undanförnum mánuðum verið orðaður við Ghost Rider með Nicholas Cage , sem datt upp fyrir, Tick Tock með Jennifer Lopez, sem datt einnig upp fyrir vegna 11. september en er nú hugsanlega að komast af stað aftur, og nú síðast við The League Of Extraordinary Gentlemen. Yrði hún byggð á samnefndri myndasögu eftir meistara Alan Moore (sem skrifaði From Hell, en samnefnd kvikmynd með Johnnie Depp er byggð á henni), og fjallar um mislitan hóp furðufugla, þar á meðal Kaptein Nemo, Dr. Jekyll, Ósýnilega manninn og fleiri. Eru þau ráðin af bresku ríkisstjórninni til þess að berjast við jafn furðulega glæpamenn og vernda heiður bresku krúnunnar á Viktoríutímanum. Ef af þessari mynd verður, munu tökur hefjast nú strax í mars á næsta ári.

