Velgengni undanfarinna ofurhetjumynda hefur valdið því að allir í Hollywood vilja gera sína eigin. New Line Cinema, sem gerði reyndar gott með báðum Blade myndunum, er að reyna að koma af stað mynd um ofurhetjuna Iron Man í samstarfi við Marvel myndasögurisann. Handritshöfundar Smallville þáttanna, þeir Miles Millar og Alfred Gough hafa verið fengnir til þess að skrifa handritið að myndinni. Hún fjallar um forríka iðnaðarjöfurinn Tony Stark sem lendir í slysi. Hann þarf að vera í sérstökum járnbúningi til þess að halda sér á lífi. Hann kemst síðan að því að búningurinn gefur honum ótrúlega krafta sem hann nýtir síðan til þess að berjast við glæpi. Stefnt er að því að hægt verði að frumsýna myndina sumarið 2005.

