Emma Watson er nú í viðræðum um að ganga um borð í Örkina hans Nóa, biblíustórmynd Darren Aronofskys sem hefur tökur hér á Íslandi í næsta mánuði, og verður einnig tekin upp í New York. Ef af verður mun hún fara með hlutverk ungrar konu sem hefur náið samband við son Nóa. Russel Crowe fer með hlutverk Nóa, og aðrir í leikhópnum verða Logan Lerman og Douglas Boothe. Enn á eftir að ráða í hlutverk eiginkonu Nóa og helsta andstæðings hans. Liam Neeson hafði verið orðaður við síðarnefnda hlutverkið en er víst dottinn út.
Emma hefur haft nóg að gera eftir að Potter áratugnum í lífi hennar lauk, og er sennilega sú af ungu kynslóðinni í leikhópnum sem hefur átt hvað auðveldast með það að færa sig yfir í önnur hlutverk. Hún var í litlu hlutverki í My Week With Marilyn. Næst munum við sjá hana í The Perks of Being a Wallflower (stikla), The Bling Ring eftir Sofia Coppola og svo leikur hún sjálfa sig í Seth Rogen sýrunni The End of the World. Myndir sem sitja á teikniborðinu hjá henni eru svo ný útgáfa Guillermo del Toro af Fríðu og dýrinu, og dramamyndin Your Voice in My Head (sem David Yates hætti nýverið við að leikstýra) svo eitthvað sé nefnt.
Það er ljóst að á Íslandi verður stjörnufans þetta sumarið. Auk Noah verður Tom Cruise hasarinn Oblivion eftir Joseph Kosinski (Tron Legacy) og Ben Stiller myndin The Secret Life of Walter Mitty sem skartar einnig Kristen Wiig og Shirley MacLaine teknar hér á landi. Auk þess fara „second unit“ tökur fyrir næstu Star Trek mynd á Íslandi – en líklega verða engir úr leikhópnum með í för. Svo mun þriðja þáttaröð af Game of Thrones hefja tökur hér á landi í haust. Þannig að þeir sem hafa áhuga á að sitja um stórstjörnur ættu að hafa nóg að gera.