Eftirfarandi er fréttatilkynning
Eldfjall, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, vann aðalverðlaunin í flokknum Meeting
Point á kvikmyndahátíðinni SEMINCI í Valladolid á Spáni nú um helgina.
Kvikmyndahátíðin í Valladolid er ein sú rótgrónasta í Evrópu, en hún var nú haldin í 56.
sinn. Til samanburðar má nefna að kvikmyndahátíðin í Cannes var í vor haldin í 64. sinn.
Flokkurinn Meeting Point er helgaður fyrstu mynd leikstjóra. Alls kepptu sautján myndir um
verðlaunin, en þau féllu Eldfjalli í skaut.
Þetta eru þriðju stóru verðlaunin sem Eldfjall hlýtur á undanförnum hálfum mánuði: Fyrir
viku hlaut hún aðalverðlaunin, Gullna úlfinn, á kvikmyndahátíðinni í Montréal, og helgina
þar á undan hlaut hún silfurverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Chicago. Áður hafði myndin
unnið til verðlauna fyrir bestu leikstjórn í Transilvaníu, besta leik í Kazakhstan, auk tvennra
verðlauna á Alþjóðlegri kvimyndahátíð í Reykjavík.
Í þessari viku tekur myndin þátt í keppni á kvikmyndahátíðum í Sao Paulo, Vín og Denver,
auk þess sem hún er sýnd á norrænum kvikmyndadögum í Lübeck.
Eldfjall fjallar um Hannes, 67 ára gamlan mann sem er að komast á eftirlaunaaldur. Hann
er karlmaður af gamla skólanum, einangraður frá fjölskyldunni og heimilinu og þarf nú að
takast á við nýtt hlutverk í lífinu. Eldfjall er þroskasaga manns sem þarf að horfast í augu
við val fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á framtíð.