Ekkert bítur á Marsbúann í USA

martianÞrjár glænýjar kvikmyndir fengu heldur lakari móttökur bandarískra bíógesta nú um helgina en búist var við, en samkvæmt frétt Reuters þá völdu bíógestir eldri myndir eins og The Martian, Goosebumps og Bridge of Spies, yfir nýju myndirnar, Paranormal Activity: The Ghost Dimension, The Last Witch Hunter og Steve Jobs.

Eftir sýningar helgarinnar í Bandaríkjunum er The Martian því vinsælasta myndin þar í landi, og hefur nú þénað 166,4 milljónir Bandaríkjadala frá frumsýningu. Jack Black myndin Goosebumps er komin upp í 43,7 milljónir dala eftir tvær vikur í sýningum og Bridge of Spies, eftir Steven Spielberg með Tom Hanks í aðalhlutverkinu, krækti í þriðja sætið og er komin með tekjur alls upp á 32,6 milljónir frá frumsýningu.

The Last Witch Hunter kostaði 70 milljónir dala í framleiðslu, en hefur aðeins þénað 10,8 milljónir dala þessa helgina í Bandaríkjunum. Hún endaði í fjórða sæti aðsóknarlistans, samkvæmt áætluðum tölum fyrir helgina alla.

Fimmta vinsælasta myndin er svo teiknimyndin Hotel Transylvania 2.

Steve Jobs, var samkvæmt Reuters, mestu vonbrigði helgarinnar, en menn höfðu gert sér góðar vonir um velgengni þeirrar myndar. Myndin þénaði 7,3 milljónir dala um helgina, en til samanburðar þénaði Jobs, myndin þar sem Ashton Kutcher lék tölvusnillinginn Steve Jobs, álíka mikið, eða 6,7 milljónir dala, á fyrstu helgi í sýningu.

Steve Jobs kostaði 30 milljónir dala í framleiðslu.

Jem and the Holograms og Rock the Kasbah náðu ekki inn á topp tíu.