Leikarabræðurnir Mark og Donnie Wahlberg hafa keypt réttinn til að nota nafnið Wahlburger á hamborgara, af hamborgarakeðju frá vestur New York ríki. Bræðurnir áætla að nota nafnið á sinn eigin veitingastað.
Eigendur hamborgarabúllunnar Tom Wahl’s segja blaðinu Democrat and Chronicle að bræðurnir, sem eru ættaðir frá Boston, hafi keypt réttinn á Wahlburgernum af fyrirtækinu og geti núna notað það þegar þeir, ásamt þriðja bróðurnum Paul, opna hamborgarastað sinn Wahlburgers Restaurant í heimaborg sinni.
Tom Wahl er með ostborgarann Wahlburger á matseðlinum hjá sér og átti skráð einkaleyfi á nafninu.
Tom Wahl og bróðir hans Bill opnuðu fyrstu Tom Wahl’s veitingastaðinn í Avon, suður af Rochester, árið 1955. Keðjan rekur núna átta veitingastaði.
Ekki er uppgefið hvað leikarabræðurnir borguðu fyrir einkaréttinn.