Komin er út glæný stikla fyrir gaman-spennumyndina Red 2, en myndin er framhald hinnar stórskemmtilegu Red frá árinu 2010 sem fjallaði um leyniþjónustufólk sem komið var á eftirlaun, en sogast aftur inn í bransann.
Red gekk betur en menn bjuggust við í miðasölunni og því var gerð framhaldsmyndar sett í gang. Myndin þénaði 200 milljónir Bandaríkjadala í miðasölunni á heimsvísu.
Sjáðu stikluna hér að neðan:
Miðað við það sem sjá má í stiklunni fáum við hér meira af því sama og var í gangi í fyrri myndinni. Dean Parisot leikstýrir myndinni en helstu leikarar eru Bruce Willis, John Malkovich, Mary-Louise Parker, Anthony Hopkins, Helen Mirren, Catherine Zeta-Jones, Byung Hun Lee, Brian Cox og Neal McDonough.
Í Red 2 safnar fyrrum leyniþjónustumaðurinn Frank Moses liði sínu aftur saman til að elta uppi týnt tæki sem tengist kjarnorkusprengju. Til að ná árangri þá þurfa þau að eiga við miskunnarlausa leigumorðingja og hryðjuverkamenn og valdasjúka embættismenn, sem allir vilja komast yfir vopnið ógurlega. Til að vinna verkefnið þarf hópurinn að fara til Parísar, Lundúna og Moskvu. Þau eru langtum verr búin til átaka en mótherjarnir, og eiga við ofurefli að etja, en með útsjónarsemi og gömlum töktum, ásamt því að hafa hvert annað, þá láta þau til skarar skríða, enda er heimurinn í hættu og þau þurfa að halda lífi.
Myndin verður frumsýnd 2. ágúst á þessu ári.