Edgerton í Biblíumynd Scotts

Stórmyndaleikstjórinn Ridley Scott er nú í þann veginn að hefja framleiðslu á Biblíumyndinni Exodus samkvæmt vefmiðlinum The Hollywood Reporter, en hún fjallar um Móses og bróður hans Ramses. Samkvæmt vefmiðlinum þá mun Christian Bale leika sjálfan Móses en talið er að Scott vilji fá Zero Dark Thirty og The Great Gatsby leikarann Joel Edgerton til að leika egypska konunginn Ramses, sem reynist vera óþokki myndarinnar.

edgerton-bale-scott-exodus

Sagt er að tökur eigi að hefjast í september, á Spáni í Marokkó og á Englandi.

Eins og Íslendingar hafa orðið varir við þá er von á annarri Biblíumynd á næstunni, en það er myndin Noah eftir Darren Aronofsky, sem tekin var hér á landi að hluta á síðasta ári. Sú mynd fjallar um Örkina hans Nóa, og syndaflóðið og er með Russell Crowe í hlutverki Nóa.

Nói kemur í bíó 28. mars 2014, en Exodus 12. desember sama ár. Nýjasta mynd Scotts, The Counselor, kemur í bíó 25. október nk.