Bandaríski leikarinn, leikstjórinn og tvöfaldi Óskarsverðlaunahafinn Clint Eastwood þarf nú að fara á stúfana og leita sér að nýrri aðalleikonu í endurgerðina af A Star is Born, sem hann er nú með í undirbúningi, eftir að söng- og leikkonan Beyoncé tilkynnti að hún væri hætt við að leika í myndinni.
„Ég hlakkaði til að leika í myndinni, og að fá tækifæri til að vinna með Clint Eastwood,“ sagði söngkonan í tilkynningu. „Við höfum reynt án árangurs að stilla saman dagskrá okkar til að þetta geti orðið að veruleika, en að lokum urðum við að játa okkur sigruð. Vonandi fáum við tækifæri til þess í framtíðinni að vinna saman.“
Bradley Cooper hefur verið nefndur í aðalkarlhlutverk myndarinnar, karlsöngvari sem má muna sinn fífil fegri sem hittir unga og saklausa söngkonu, sem Beyoncé hefði leikið. En orðrómur um þátttöku Cooper var í raun orðum aukinn, og hann hefur aldrei tengst myndinni. „Við höfum rætt við nokkra leikara, en munum líklega ekki ákveða neitt fyrr en á næsta ári,“ sagði Eastwood í samtali við E-tímaritið.
Endurgerð Eastwoods myndi verða fjórða útgáfan af A Star Is Born, en upprunalega útgáfan kom út árið 1937 með þeim Janet Gaynor og Fredric March. Judy Garland og James Mason léku svo í myndinni frá 1954 og Barbra Streisand og Kris Kristofferson léku í endurgerð sem margir muna eftir frá árinu 1976.