Tökur á endurgerð hinnar sígildu hrollvekju Poltergeist, eða Ærsladraugur, eins og upphaflega myndin hét á íslensku, hefjast nú í haust, og því ekki seinna vænna fyrir framleiðendur að velja helstu leikara myndarinnar.
Einn af þeim sem nú er búið að ráða í stórt hlutverk, er Jared Harris, en hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem prófessor James Moriarty í Sherlock Holms: A Game of Shadows, eða sem Lane Pryce í sjónvarpsþáttunum Mad Men.
Leikstjóri myndarinnar er Gil Kenan.
Myndin fjallar um Bowens fjölskylduna sem flytur inn í nýtt hús, en hryllingurinn byrjar þegar ungri dóttur Bowens hjónanna er rænt. Bowens hjónin kalla til sérfræðinga í yfirskilvitlegum atburðum til að hjálpa sér að finna dótturina, en þar fer fremstur í flokki dulsálfræðingurinn Dr. Brooke Powell, sem hefur sérhæft sig í þessháttar málum.
Harris mun leika Carrigan Burke, fyrrum fræðimann sem hættir að vinna í skóla til að stjórna sjónvarpsþætti sem heitir Hreinsunarmenn Draugahúsa.
Poltergeist er væntanleg í bíó seint á næsta ári, 2014.