Iron Man leikarinn Robert Downey Jr. mun leika aðalhlutverkið í myndinni The Voyage of Doctor Dolittle, sem byggð verður á bókum Hugh Lofting um Dagfinn dýralækni, eins og hann heitir á íslensku.
Stephen Gaghan (Syriana, Gold) mun leikstýra eftir eigin handriti.
Dagfinnur kom fyrst á hvíta tjaldið árið 1967 í myndinni Doctor Dolittle í leikstjórn Richard Fleischer, sem byggð var á bókunum The Story of Doctor Dolittle, The Voyages of Doctor Dolittle og Doctor Dolittle’s Circus.
Í sögunum er fjallað um Doctor John Dolittle ( Dagfinnur dýralæknir ), sem er fyrrum læknir en býr nú með dýrum, annast þau, og segist geta talað við þau.
Fyrsta myndin, þar sem Rex Harrison fór með aðalhlutverkið, var söngleikur, og varð ekki mjög vinsæl í fyrstu, en var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta mynd og vann verðlaunin fyrir besta frumsamda lag og tæknibrellur.
Önnur mynd um Dagfinn var frumsýnd árið 1998, og nú með Eddie Murphy í aðalhlutverkinu. Sú mynd varð mjög vinsæl og fjórar framhaldsmyndir fylgdu í kjölfarið.
Síðast sáum við Downey sem Tony Stark í Captain America: Civil War og Avengers: Age of Ultron. Hann mætir aftur til leiks í sama hlutverki í Spider-Man: Homecoming og Avengers: Infinity War.
Gaghan vann Óskarsverðlaunin fyrir handrit sitt að mynd Steven Soderbergh, Traffic. Þá skrifaði hann og leikstýrði Syriana og Gold.